Innlent

Sakfellingar vegna fíkniefnabrota ellefufaldast á tólf árum

Sakfellingum vegna fíkniefnabrota fjölgaði ríflega ellefufalt á árunum 1993 til 2005 samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar um sakfellingar í opinberum málum við héraðsdómstóla landsins. Þetta er í fyrsta sinn sem þessar tölur eru birtar opinberlega.

Brotin ná yfir þann tíma sem héraðsdómstólar landsins hafa starfað í núverandi mynd en samkvæmt lögum sem samþykkt voru 1. júlí 1992 var skilið á milli dómsvalds og umboðsvalds í héraði og átta héraðsdómstólum komið á fót.

Fram kemur í tölum Hagstofunnar að langalgengustu brotin sem sakfellt er fyrir séu umferðarlagabrot og á það við um allt tímabilið. Sakfellingum vegna umferðarlagabrota fjölgaði úr 770 árið 1993 í 1.176 árið 2005 eða um 52 prósent. Sakfellingum vegna auðgunarbrota, sem eru meðal annars rán, fjárdráttur, fjársvik og þjófnaðir, fjölgaði úr 367 í 479 eða um þrjátíu prósent á tímabilinu, en ef aðeins er litið til þjófnaða fjölgaði þeim um nærri helming á árunum 1993-2005.

Svipaða sögu er að segja af brotaflokknum manndráp og og líkamsmeiðingar en þar hefur sakfellingum fjölgað um 30 prósent og má rekja fjölgunina í brotaflokknum fyrst og fremst til fleiri sakfellinga vegna minni háttar líkamsmeiðinga. Sakfellingum vegna brota sem varða fjárréttindi, en þar undir heyra eignaspjöll og nytjastuldur eins og bílþjófnaður, fækkar hins vegar á tímabilinu um tæp tíu prósent.

Mest fjölgun sakfellinga hefur hins vegar orðið í fíkniefnabrotum en þar hefur sakfellingum fjölgað úr 53 í 603 eða um rúmlega ellefufalt. Skiptir þá engu til hvað héraðsdómstóls er horft, alls staðar hefur orðið mikil fjölgun sakfellinga vegna fíkniefnamála.

Bent er á í skýrslu Hagstofunnar að taka verði mið af þróun íbúafjölda í landinu á árunum 1993-2005 en á þeim tíma fjölgaði landsmönnum um þrettán prósent, úr tæplega 265 þúsund í 299 þúsund.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×